Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur er sviðsstjóri hjá embætti landlæknis. Hún er með doktorsgráðu í lýðheilsu og hefur sérhæft sig í rannsóknum á hamingju og vellíðan. Hún segir mikilvægt að einbeita sér að hinu góða í lífinu og finna uppbyggilegar leiðir til að takast á við mótlæti til að öðlast hamingju.
„Ég held að það séu mjög margar góðar forsendur fyrir því að lifa hamingjuríku lífi á Íslandi,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri lýðheilsu hjá embætti landlæknis sem hefur sérhæft sig í hamingjurannsóknum.
Rannsóknir sýna að Íslendingar eru með hamingjusömustu þjóðum í heimi. Dóra Guðrún segir að það séu margar góðar forsendur fyrir því að lifa hamingjuríku lífi á Íslandi. „Við erum samfélag þar sem að við metum þá þætti sem skipta máli,“ segir hún. „Við erum friðsæl þjóð, það er auðvelt fyrir okkur að vera í nánum tengslum við fólkið okkar, það eru ekki langar vegalengdir. Við leggjum áherslu á velferð og velsæld.“ Dóra Guðrún hefur rannsakað hamingjuna í 20 ár og ræddi hamingjurannsóknirnar í Kastljósi.
Janúar er ekkert endilega verstur
Skammdegið getur tekið á sálarlíf landsmanna og vont veður sett strik í reikninginn. „Myrkrið getur verið líka innblástur fyrir eitthvað gott og fallegt orðatiltæki sem segir, við myndum nú ekki sjá stjörnurnar eða norðurljósin ef það væri ekki fyrir myrkrið.“ Dóra Guðrún segir mikilvægt að finna ljósa punkta í lífinu þó myrkrið sé alltumlykjandi.
Dóra Guðrún og fleiri vísindamenn hafa rannskaða líðan Íslendinga eftir mánuðum. Vísindamenn skoða hlutfall þeirra sem segjast mjög hamingjusamir, mjög óhamingjusamir og meðaltalið. „Janúar er ekkert endilega verstur.“ Töluleg gögn liggja fyrir um líðan Íslendinga eftir mánuðum nokkur ár aftur í tímann og það er enginn einn mánuður sem er áberandi verri en annar.